Hvernig læri ég best?

Það er mikilvægt að hafa í huga að nemendahópurinn okkar er samansettur af börnum með mismunandi námsstíl og með því að þekkja nemendahópinn þá getum við hjálpað þeim að finna þær aðferðir sem henta þeim best.

Hérna eru skjöl sem kennarar geta notað til að kynna ólíka námstíla fyrir nemendunum.

Þó að nemendur hafi ákveðin námsstíl þýðir það ekki að við þurfum að skipta nemendahópnum okkar alltaf í mismunandi hópa og kenna námsefnið á fjóra mismunandi vegu!

Margir nemendur eru fjölþættir og nýta sér mismunandi þætti úr öllum námsstílum. Sumir nemendur geta verið sjónrænir í sumum aðstæðum, en hljóðrænir í öðrum.

Það getur því verið mjög hentugt að vita hvaða þættir passa við hvern nemanda.

Nemendur merkja við þá þætti sem passa við þá, klippa þá út og líma á nýtt blað. Þar með er kennarinn kominn með góða mynd af nemendahópnum, hvernig hópnum finnst best að læra og hvaða námstíl þeir tengja best við. Hægt er að skoða m.a. hvaða nemendur sækjast í að vinna í hóp, eða vilja frekar vinna sjálfstætt, hvort nemendur hallist meira að sjónrænum lærdómi eða heyrnrænum, eða hvort þeir vilja frekar lesa og skrifa svo fá dæmi séu tekin.

Hér eru fleiri skjöl sem kennarar geta notað til að fá innsýn í námsstíl og áhugasvið nemendahópsins.

Kynnumst nemendunum okkar

Það er mikilvægt að við kennarar gefum okkur tíma til að kynnast nemendum okkar. Að þekkja styrkleika, veikleika og áhugasvið þeirra hjálpar kennurum að styðja sem best við hvern og einn,

Ef við þekkjum nemendurna okkar vel, þá er hægt að grípa mun fyrr inní þegar þeir eiga í erfiðleikum með námið sitt og á sama tíma styðja enn betur við styrkleika þeirra.

Það er mikilvægt að þekkja áhugasvið nemandana og sýna því áhuga.

Ef við sýnum nemendunum okkar áhuga, virðingu og væntumþykju þá eru mun meiri líkur á að við fáum það sama frá þeim.

Það eru margar leiðir til að kynnast nemendum sínum, en sú árangursríkasta er einfaldlega að taka samtalið við þau. Það skiptir máli að spjalla við hópinn okkar, t.d. um námið eða lífið fyrir utan skólann.

Þetta skiptir svo gríðarlega miklu máli, við viljum skapa skóla þar sem styrkleikar og áhugasvið barnanna fær að njóta sín, við viljum nýta verkefnamiðað nám sem hægt er að sníða að námsþörfum hvers og eins, og til að þekkja og vita hverjar námsþarfir barnanna eru þá verðum við að spjalla við þau og kynnast þeim.

Hérna eru skjöl með allskonar spurningum sem hægt er að nýta til að brjóta ísinn með krökkunum, og skemmtilegt bekkjarbingó!

https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2022/01/Hopefli-Bekkjarbingo-1.pdf?fbclid=IwAR30CPVTBNO-JOioEQVkzlD-psN_LIF98lPhiZCuPRYaCSBn6JFvMDnhlNQ

https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2022/01/kynnast-nemendahopnum.pdf?fbclid=IwAR1dMCHlyl76o3Bf_mtXf-4O81VrOM71FKiYBd3-w2blKchdDlwMPBJbArI

Pokafjör

Þegar nemendurnir eru búnir með það verkefni sem þeir eiga að vinna í tímanum, eða þurfa á smá hléi að halda þá er gott að grípa í pokafjörið (e. Busy Bags).

Þetta eru plastvasar með annaðhvort auðveldum skólaverkefnum eða leikföngum.

Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til taks í kennslustofunni fyrir nemendur sem auðvelt er að grípa í. Hugsunin á bakvið pokafjörið er að nemendur geta dundað sér við pokafjörið sjálfstætt t.d. í lok kennslustundar og/eða hvílt hugann á milli verkefna.

Það er hægt að setja allskonar skemmtilegt í plastvasana og hér eru nokkrar hugmyndir sem þið getið nýtt ykkur. Oft á tíðum má finna allskonar hluti í nytjamörkuðum eða skoða í gömlu góðu geymsluna heima.

Ég hef alltaf í huga hvaða færni er hægt að efla og hver tilgangurinn með verkefninu er.

Pokafjörið er hægt að nýta í hvaða kennslu sem er og með hvaða aldri sem er.

Þessir pokar eru hugsaðir fyrir börn á aldrinum 6-8 ára.

Pokafjörið.
Plastskífur: Efla t.d. fínhreyfingar – rökhugsun – einbeitingu –
Dómínó
risaeðluþema – leikföng og stærðfræðidæmi.
Pennar og dúkar til að skrifa á
Kubbar til að byggja, það eru bókstafir í gluggunum, t.d. hægt að byggja orð.
Íspinnastangir – raða réttum litum á spjöldin.
Bókstafaspjöld: raða og telja
Kubbar: Byggja eftir fyrirmynd.
Dúkkulísur
Dómínó
Stærðfræðispjöld – samlagning og frádráttur
Kubbar
Plúskubbar
Pinnar og bretti
Stærðfræðipúsl – samlagning og frádráttur
Samstæðuspil – talning og samlagning
Tengja saman liti – eflir m.a. rökhugsun

Litla fjölbreytta vefverslunin

Síðustu vikur hef ég prófað mig áfram í sölu á námsefni og þar sem salan hefur farið fram úr öllum vonum þá hef ég ákveðið að opna litla vefverslun hér á síðunni, til að gera söluefnið aðgengilegra. Þið finnið hana undir “vefverslun” hér að ofan.

Ég býst við að stækka úrvalið hægt og rólega, en núna er hægt að kaupa verkefnabækur, segla, spil og stafrófsveggspjöld.

Smellið hér til að komast beint inn á vefversluna https://fjolbreyttkennsla.is/vefverslun-2/

Pantanir fara fram í gegnum pantanir@fjolbreyttkennsla.is – en það er líka velkomið að senda mér skilaboð í gegnum facebook-síðuna.

Takk fyrir móttökurnar! Ég er svo þakklát.

ps. Ég mun halda áfram að setja inn ókeypis námsefni líka – ég bæti inn nýju efni næstum daglega

Verkefnabókin mín

*TIL SÖLU*

Verkefnahefti með tæplega 30 verkefnum, útprentuð og með heimsendingu.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu í dag, þar sem röskun er á skólastarfinu og lífinu almennt! Þá langar mig að létta undir með bæði foreldrum og kennurum og bjóða uppá útprentuð hefti til sölu með tæplega 30 verkefnum.

Í heftinu eru m.a. verkefni sem þjálfa hljóðkerfisvitund, lestur, lesskilning, fínhreyfingar, stærðfræði og fleira.

Það eru þrjú þyngdarstig í boði
– elstu börn í leikskóla
– 1. bekkur
– 2. bekkur

Pantanir fara fram í gegnum Facebook síðuna eða Instagram síðuna

Ég sendi hvert á land sem er og um allan heim!

1 stk 3500 kr.
2 stk 5000 kr.
3 stk 7000 kr.

Spil

sýnikennsla: http://www.instagram.com/fjolbreytt_kennsla

Ég á – Hver á?

Leiðbeiningar: Þessi spil ganga út frá því að nemandinn verður að skoða öll spilin sín vel, pæla í myndunum eða orðunum til að finna út hvort þau eiga spilið sem spurt er um.

Til dæmis: “Ég á tönn – Hver á tennur?” Þá skoða allir sinn bunka og sá er með myndirnar af öllum tönnunum þá leggur hann út spilið

“Ég á tennur – Hver á mús?” og svo koll af kolli.

Fleirtala

Hér eru tvær útgáfur af þessu spili, annars vegar með myndum og hins vegar með orðum.

Rím

Hér eru tvær útgáfur af spilinu, önnur er með myndum og hin með orðum.

Orðaforði

Leikreglur: Spilastokknum er skipt á milli nemenda. Sá nemandi sem er með fyrsta spjaldið leggur það út og spyr “hver á”, sá sem á myndina/orðið sem spurt er um leggur sitt spjald yfir og segir “ég á ….” “Hver á …” og svo koll af kolli þangað til síðasta spjaldið er lagt fram.

Þrjár tegundir af spilastokkum

Gulur: einungis myndir – Rauður: myndir og orð til skiptis – Grænn: einungis orð

Samsett orð

Hér eru tvær útgáfur af spilinu, önnur er með myndum og hin með orðum.

Tugir

Hugmyndin er fengin að láni frá yndislegum kennara

Tölustafir 1-20

Þessi hugmynd er fengin að láni frá yndislegum kennara.

Auðveld reikningsdæmi

Þetta spil er tilvalið að spila með nemendum sem eru að stíga sín fyrstu skref í samlagningu.

Bókstafir

Fyrsta hljóð í orði

Hér eru fjórir spilastokkar, þar sem er verið að vinna með ákveðið hljóð. Í S-stokknum eru bara orð sem byrja á s, í R-stokknum orð sem byrja bara á R …osfrv.

Form og litir

Líkaminn

Hugtök: fatnaður – matur – hljóðfæri – farartæki

Ofurhetjur

Einbeitingarerfiðleikar.

Hvað getum við gert til að aðstoða barn með einbeitingarerfiðleika við nám sitt?

Hér eru nokkur ráð sem foreldrar, kennarar og aðrir geta nýtt sér til að aðstoða barnið við nám sitt.

Skýr fyrirmæli er lykilatriði þar sem barn verður að vita hvers er ætlast til af því. Það er til dæmis hægt að brjóta verkefni niður í smærri einingar og gefa ein fyrirmæli í einu.

Sjónrænar vísbendingar geta dregið úr óöryggi barns ásamt því að ýta undir sjálfstæði þess.

Fiktdót eða það hafa eitthvað í höndunum til að „fikta í“ getur hjálpað börnum sem eiga erfitt með að vera kyrr eða eiga erfitt með að einbeita sér. Þannig fá þau ákveðna útrás án þess að færast úr stað.

Sýnilegt námsefni: t.d. tölustafir, stafrófið eða orðaveggur sem barnið geta nýtt sér þegar það þarf á því að halda. Það ýtir undir sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði barnsins ef það getur nálgast upplýsingar sjálft í stað þess að þurfa að leita til kennara í hvert skipti sem það þarf aðstoð.  

Áhugasvið. Ef viðnýtum áhugasvið barnsins í náminu þá eru meiri líkur á að barnið hafa gaman af náminu og styrkleikar þess fá að njóta sín

Heilahlé: Stundum þurfa litlir heilar smá hlé og þá er gott að geta gripið í t.d. bækur, önnur verkefni eða skipta um umhverfi í stutta stund.

Ef hægt er að mynda augnsamband við barnið þá er það góð leið til að fá endurgjöf strax frá barninu t.d hvort barnið hafi náð þeim fyrirmælum sem maður setti fyrir það.

Tímavaki: Börn með einbeitingarerfiðleika eru oft með takmarkað tímaskyn og því geta tímavakar (skeiðklukkur) komið að góðum notum. Hægt er að stilla hversu langan tíma barnið fær/þarf að gera ákveðna athöfn og barnið getur fylgst með hvernig tímanum líður.

Einfalda/afmarka námsefnið: Þá er í raun verið að gefa barninu minna að hugsa um í hvert skipti, t.d. ef barnið upplifir verkefnin sín óyfirstíganleg þá er gott að brjóta þau niður í smærri einingar og klára hverja einingu fyrir sig.

Verkleg verkefni: Að læra með því að framkvæma! Með því að barnið framkvæmi sjálft þá er það að þjálfa hina ýmsu þætti, t.d. sjálfstæði, frumkvæði og lausnarleit.

Lesskilningur

Lesskilningur er undirstaða alls náms!

Í stuttu máli: Það að geta lesið og skilið hvað maður er að lesa er undirstaða alls náms!

Þegar ég vinn með lesskilning þá finnst mér gott að skipta honum upp í þrjú þrep.

ÞREP 1.

Nemendur lesa orð eða stuttar setningar og skilja hvað þeir eru að lesa. Þrep 1 er þá grunnurinn, að nemandi les og skilur hvað hann er að lesa. Það er ekki verið að spyrja út í textann, einungis verið að vinna með orð sem nemandinn les.

Hérna eru dæmi um verkefni sem ég myndi flokka sem þrep 1 lesskilning.

orð + myndir: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/07/orc3b0-og-myndir.pdf

gerðu hring utan um rétt orð: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/08/gerc3b0u-hring-utan-um-rc3a9tt-orc3b0.pdf

lesum og límum: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/07/lesum-og-lc3admum.pdf

lesa, skrifa, teikna: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/07/copy-of-lesa-skrifa-teikna.pdf

lesum og litum: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/05/lesum-og-litum-1.pdf

ÞREP 2.

Hérna erum við að vinna með setningar og svörun, það er ekki einungis verið að vinna með skilningin heldur líka svörun frá nemanda – hann les setningu og svarar, og þar með sýnir hann skilning á efninu (alls ekkert flókið þegar ég reyni að hljóma fagleg) – í raun er ég að segja að nemandi les setningu og sýnir fram á skilninginn með því að svara

Hér eru dæmi um verkefni sem ég myndi flokka sem 2.þrep lesskilning.

Nemendur lesa setninguna og koma með svar/viðbrögð strax. Þau lesa ekki texta og svara svo spurningum eins og í “hefðbundnum” lesskilningi – heldur er ein setning tekin fyrir í einu, henni er svarað og svo er farið í næstu setningu. Þetta þrep af lesskilningi krefst þess ekki að nemendur skrifi til að sýna fram á skilning, heldur lesa þeir og fylgja ákveðnum fyrirmælum.

lesskilningur: málörvun + orðaforði: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/05/lesskilningur-mc3a1lc3b6rvun.pdf

lesskilningur: skoðaðu myndina og svaraðu spurningunni https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/09/skoc3b0ac3b0u-myndina-og-svarac3b0u-spurningum-1.pdf

ÞREP 3

Á þessu þrepi erum við farin að vinna með texta og svara spurningum, þessi “hefðbundni” lesskilningur.
Hér eru dæmi um lesskilning sem ég myndi flokka sem þrep 3.

Nemandi les ákveðið magn af texta og svarar svo spurningu/spurningum út frá textanum. Fyrir þá sem eru lengra komnir er hægt að þyngja verkefnið aðeins t.d. með því að hvetja nemendur til að svara í heilum setningum – eða fá þau til að ígrunda textann enn frekar.

lesskilningur: persónufornöfn, litir og fatnaður: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/05/lesskilningur.pdf

lestur, ritun, lesskilningur – nemendur lesa textann, svara spurningu og skrifa upp textann (ég mæli með að prenta þessi skjöl í booklet-stillingu) https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/05/heimalestur-1.pdf
https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/05/heimalestur-2.pdf
https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/05/heimalestur-3.pdf

_____________________________________________________________________

Með því að hugsa um lesskilning á þessum þremur þrepum, þá er hægt að koma til móts við mjög breiðan hóp nemenda þegar verið er að vinna með lesskilning – hér er tekið tillit til þess hvar í lestrarferlinu nemendur eru staddir og allir fá efni við hæfi.

stafainnlögn

Hér eru fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem hægt er að nota samhliða stafainnlögn.

Verkefnin leggja áherslu á að þekkja nafn og hljóð bókstafsins, þjálfar fínhreyfingar og fyrsta hljóð í orði. Ég skipti verkefnunum í tvo hluta, annars vegar áþreifanleg verkefni (hands-on) og hins vegar skrifleg verkefni. Verkefnin má finna hér á síðunni undir “Bókstafir”.

leir

Að leira bókstafi er góð æfing fyrir alla, sérstaklega börn sem eiga í erfiðleikum með að muna hvernig stafurinn lítur út.

Mynd frá Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.
Mynd frá Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.
Mynd frá Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.

______________________________________________________________________

Ég nota leirmottur mikið í minni kennslu með nemendum. Mér finnst gott að geta gripið í leir þar sem börn eru oftast mjög hrifin af því að fá að leira og læra með höndunum. Það er líka hægt að nota töflutúss á motturnar.

Hérna eru nemendur að þjálfa stafaþekkingu, hljóð bókstafanna og fínhreyfingar.

Á mottunum er bæði há- og lágstafur, og eru bókstafirnir annaðhvort grænir eða rauðir – fer eftir því hvort bókstafurinn sé sam- eða sérhljóði.

Leirmottur stafrófið: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/07/copy-of-leirmottur-stafrc3b3fic3b0-1.pdf?fbclid=IwAR0yEFf7GVeeru964EAn8LY5HdpYFOqMmo9vN7Zpz6kIR3c4ZiHqpa9D5f4

Hér er önnur útgáfa af leirmottum með bókstöfum – Nemendur segja nafn og hljóð bókstafsins, því næst lesa þeir orðið og leira/teikna það sem vantar á myndina.

leirmottur – stafrófið https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/08/leirmottur-stafrc3b3fsmotta.pdf

___________________________________________________________________________

Það er hægt að nota margt fleira en leir til að móta bókstafi, t.d. pípuhreinsir, íspinnastangir, smáhlutir, pinnabretti og kubba.

Mynd frá Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.
pípuhreinsir
pinnabretti
íspinnastangir
Mynd frá Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.
lítil strokleður
kubbar

________________________________________________________________________

spil

Á pinterest má finna mikið af bókstafaspilum sem gaman er að spila. Hérna eru nokkur sem ég hef notað í kennslunni hjá mér

Fyrsta hljóð í orði

Ég hef búið til mikið af verkefnum þar sem verið er að vinna með fyrsta hljóð í orði. Hægt er að nálgast þau hérna á síðunni

https://fjolbreyttkennsla.is/fyrsta-sidasta-hljod-i-ordi/

Þegar ég kenni bókstafina þá legg ég áherslu á bæði fjölbreytni og endurtekningu. Inná facebook síðunni er hægt að skoða fleiri fjölbreytt verkefni undir möppunni “bókstafir”.

Stafrófið

það er mikilvægt að hafa greiðan aðgang að stafrófinu í kennslustofunni, þá er auðvelt að benda nemendum á hvernig bókstafirnir líta út.

Hérna eru spjöld og veggspjöld sem ég nota í minni kennslu

https://fjolbreyttkennsla.is/stafrofid/

Skólabyrjun #3 – Markmiðasetning og framfarir.

Markmið

Mér finnst mjög gott að láta nemendur setja sér markmið í byrjun skólaársins, það gerir þá virkari þátttakendur í náminu sínu og meðvitaðri um hvað þeir eru að læra og hvers vegna.

Með því að fara í gegnum markmiðasetningu með krökkunum þá fæ ég góða innsýn í áhugasvið þeirra, hugsunarhátt og viðhorf gagnvart skóla og námi.

Markmiðin eru jafn ólík eins og þau eru mörg – og leiðirnar að markmiðunum eru líka ólíkar.

Sonur minn setti sér markmið í fyrra um að læra meira um risaeðlur.

Við tókum þessu markmiði að sjálfsögðu mjög alvarlega og mikill tími fór í að lesa hinar ýmsu bækur um risaeðlur og horfa á risaeðlumyndir. Við mæðgin gerðum líka fjölbreytt verkefni, m.a. röðuðum við risaeðlunum hans eftir raunstærð þeirra, merktum á landakorti hvar risaeðlubein hafa fundist og merktum á vegginn hans hversu stórar risaeðlurnar voru.

Í skólastofunni hafa nemendur sett sér markmið eins og “ég vil læra að lesa fyrir jól” og “ég vil kunna að telja uppá 100” – Ef markmiðið er mjög flókið eða ég sé framm á að nemandinn er ekki að fara að ná þessu markmiði, þá brýt ég það niður í nokkrar einingar og við byrjum á einni einingu í einu – svo er gott að geta minnt á markmiðið og því hef ég haft það sýnilegt í bókunum þeirra – og það er alltaf mikil gleði þegar markmiði er náð!


Framfarir

Að fylgjast með framförum nemenda er eitt af því skemmtilegasta við starfið mitt! Það er mikilvægt að leggja grunninn strax í byrjun, t.d. fylgjast með stafaþekkingunni og leggja fyrir nemendur stöðumat – prófa svo að leggja stöðumatið aftur fyrir nokkrum vikum seinna og sjá þá hvort að kennslan hafi skiljað tilsettnum árangri eða hvort þurfi að breyta um taktík í kennslunni.

Hérna er dæmi um hvernig ég fylgist með framförum. Þessi nemandi vera að þjálfa sig að skrifa og lesa stutt orð. Einu sinni í mánuði las ég upp sömu orðin og hann skrifaði þau, þarna gat ég séð hvort að kennslan væri að virka fyrir þennan tiltekna nemanda. Þetta sýnir mér líka hvernig skriftin þróast hjá nemandanum.

Þetta skjal nota ég líka mikið í kennslunni hjá mér, nemendur skrifa nafnið sitt einu sinni í mánuði og hægt er að fylgjast með framförum, hægt er að skoða rithöndina, hvort nemendur noti há- eða lágstafi, hvort nemendur skrifi fullt nafn, hluta úr nafninu sínu eða gælunafn.

Hérna er annað dæmi. Dóttir mín skrifaði nafnið sitt og teiknaði sjálfsmynd einu sinni í mánuði og það er yndislegt að sjá hvernig teikningarnar hennar þróast á einu ári. Hún hefur líka mjög gaman af því að skoða þetta sjálf.

Hér er texti sem nemandi las í sept. 2018 – hann las í eina mínútu og ég merkti við hversu langt hann komst á þessari mínútu. Ég sá að textinn var of þungur fyrir hann, svo ég lagði hann til hliðar, svo eftir áramótin þá fann ég textann aftur – lestrarpróf nemandans sýndu fram á að nemandinn var ekki bæta sig, en ég og umsjónarkennarinn fundum mikinn mun á lestrarhraða og öryggi nemandans og fannst það hálf fúlt að lestrarprófið sýndi ekki þessa bætingu. Hann les þennan texta hjá mér aftur, las í eina mínútu og ég merkti við hversu langt hann komst og viti menn! Þvílíkar framfarir , þið getið nú rétt ímyndað ykkur gleðina þegar ég gat sýnt foreldrunum þessar flottu framfarir.

Til þess að geta fylgst markvisst með framförum, þá mæli ég með að setja dagsetningu á öll verkefni!


Markmiðið mitt: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/08/markmic3b0ic3b0-mitt-1.pdf

Nafnið mitt: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/08/svona-skrifa-c3a9g-nafnic3b0-mitt.pdf

janúar – desember: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/08/jan-des.pdf

Nú hef ég fjallað um þær aðferðir sem ég nota til að meta þekkingu í byrjun skólaársins – bókstafaþekkingu, stöðumat, markmiðasetningu og hvernig ég vil fylgjast með framförum.