Hér eru verkefnapakkar sem ég bjó til, þeir innihalda verkefni með undirstöðuatriðum í lestri og stærðfræði í 1.bekk
Ég hugsa þessi verkefni annars vegar sem stöðumat fyrir kennara til að sjá hvar nemandinn stendur, og hins vegar sem verkefni sem hægt er að grípa í t.d. þegar nemandinn er búinn að vinna í vinnubók og vantar ef til vill ítarefni.
Mér finnst mjög gott að hafa einhverja ákveðna grunnlínu þegar kemur að þekkingu nemandans sem fyrst þegar ég byrja að vinna með honum. Það er mikilvægt að vita hvar nemandinn stendur svo að hægt sé að byggja ofan á þekkingu hans. Ég hef oft stuttan tíma í einu með hverjum nemanda og því vil ég ekki eyða alltof miklum tíma í að kortleggja þekkinguna, heldur fá það bara sem fyrst á hreint hvað hann kann vel og hvað þarf að þjálfa betur.
Ég sé fyrir mér að þessi verkefnapakki geti gefið einhverja vísbendingu um stöðu nemandans og svo mun ég grípa í það ítarefni sem þarf eftir því hvar nemandinn þarf meiri aðstoð. Einnig er hægt að nota verkefnin til að sjá hvar styrkleikar nemandans liggja og þá er hægt að leyfa nemanda að vinna dýpri vinnu tengda styrkleikunum, það er svo gaman að geta stundum unnið hratt og vel, og finna til öryggis þegar kemur að verkefnavinnu.
Þeir nemendur sem ég vinn með hafa oft mikla löngun í að klára verkefni (jaa eins og allir aðrir nemendur) og ef þau eru sífellt að vinna þung verkefni sem eru yfir getu þeirra, þá finna þau sjaldnar þessa sigurtilfinningu að ná að klára. Þar af leiðandi legg ég áherslu á að nemendurnir séu ekki alltaf að kljást við verkefni þar sem þau þurfa að læra nýja hluti, heldur líka að þjálfa sig enn frekar í því sem þau kunna vel.
Hér eru verkefnapakkarnir.