BÓKAKLÚBBURINN

_____________________________________________________________________________________________

Fyrsta bók bókaklúbbsins er sagan Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Hún teiknar myndirnar í bókinni líka – bókin er gefin út af Bókabeitunni.

Foreldri og barn/börn eða kennari og bekkur lesa bókina í sameiningu – það er t.d. hægt að foreldri lesi fyrir barnið, barnið les fyrir foreldrið, þið skiptist á að lesa kafla og kafla eða setningu og setningu eða þið getið hlustað á hljóðbók.

Ég hvet ykkur til að kíkja á verkefnið áður en þið byrjið að lesa, til að hafa ákveðna þætti í huga á meðan þið lesið. Það verður alltaf ákveðið þema í verkefninu, t.d. er þema febrúar persónurnar í sögunni.

EF þið eruð búin að lesa bókina en viljið taka þátt, þá er það í góðu lagi – þá er hægt að rifja söguna upp og svara spurningunum.

Svo fyllið þið verkefnið út, hvort sem það er á tölvutæku formi, handskrifað, tekið uppá myndband – hvað sem er – eftir það sendið þið mér tölvupóst á netfangið fjolbreytturbokaklubbur@gmail.com

Ein af ástæðunum af hverju ég vil fá verkefnin aftur til mín er m.a. til að sjá hvernig börnunum fannst bók mánaðarins, hvort þau mæli með henni fyrir önnur börn og hvernig foreldrum/kennurum fannst bókin. Einnig hef ég gaman af því að sjá pælingar barna þegar þau lesa bækur og þetta er ágætis leið til að ná til enn fleiri barna en bara minna eigin og þeirra sem ég kenni. Ég hlakka til að sjá gullkorn barnanna því þau eru oft á tíðum algjörir gullkorna-meistarar!

Önnur ástæða er svo ég geti dregið út vinningshafa sem fá næstu bók bókaklúbbsins að gjöf frá bókaútgáfunni.

Í lok hvers mánaðar set ég hér á vefinn umsögn um bókina, annars vegar út frá áliti barnanna og hins vegar út frá áliti foreldra/kennara. Ég stefni á að hér verði því hægt að safna saman umsögnum um bækur sem henta t.d. börnum sem eru að stíga fyrstu skrefin í lestrinum, börnum sem eru komin lengra á veg með lestrarnámið og bækur fyrir börn sem eru orðin fluglæs. Fjölbreyttar bækur fyrir fjölbreyttan nemendahóp!

Hér er verkefnið fyrir febrúar-mánuð. Takk fyrir að taka þátt! Takk fyrir að gera Fjölbreyttan bókaklúbb fyrir fjöruga krakka að veruleika! ❤