Skólabyrjun #1

Jæja þá fer að styttast í að skólarnir byrji aftur eftir gott sumarfrí.

Ég ætla að fara yfir hvað mér finnst gott að byrja á að gera með mínum nemendum fyrstu dagana. Ég nota fyrstu dagana til að kortleggja getu og áhuga nemendanna og plana svo kennsluna alfarið út frá því hvar börnin standa hverju sinni.

Stafaþekking.

Ég byrja á því að skoða stafaþekkingu barnanna og merki á svona blað hvaða bókstafi við þurfum að þjálfa betur.

Það eru líklega einhverjir sem velta því fyrir sér af hverju ég merki við þá bókstafi sem barnið þarf að þjálfa, í stað þess að merkja þá bókstafi sem barnið kann. Ástæðan fyrir því er einföld:

Þar sem ég sé um sérkennsluna þá fæ ég oft á tíðum takmarkaðan tíma með hverju barni, þar af leiðandi fer mikið af kennslutímanum að bæta við þekkingu í stað þess að þjálfa þá þekkingu sem fyrir er. Auðvitað þjálfum við líka það sem við kunnum, en eins og staðan er núna þá fer tíminn aðallega í það að leggja inn nýja þekkingu – þar af leiðandi vil ég leggja áherslu á þá bókstafi sem við þurfum að læra

Með því að lita yfir þá bókstafi með áherslutúss, þá legg ég áherslu á þá stafi – læt þá poppa svolítið út, vera meira grípandi en hina bókstafina. #ofhugsun og þá fá þeir bókstafir sem við þurfum að þjálfa, meiri kennslutíma fyrir vikið.

Ég fer yfir stafaþekkingu barnanna að minnsta kosti einu sinni í mánuði og merki á svona blað í hvert skipti. Þá er mjög auðvelt að sjá framfarirnar, og þar sem þetta er svo sjónrænt þá eiga börnin mjög auðvelt með að fylgjast með sínum eigin framförum.

Hérna er hægt að nálgast skjalið: https://fjolbreyttkennsla.is/wp-content/uploads/2019/09/copy-of-c39ejc3a1lfa-c3beessa-stafi.pdf

Næstu daga ætla ég að pósta um hinar ýmsu aðferðir sem ég nota til að kortleggja þekkingu barnanna fyrstu dagana og svo ætla ég að fara yfir hver næstu skref eru þegar ég er búin að kortleggja.

Leave a Reply