Einbeitingarerfiðleikar.

Hvað getum við gert til að aðstoða barn með einbeitingarerfiðleika við nám sitt?

Hér eru nokkur ráð sem foreldrar, kennarar og aðrir geta nýtt sér til að aðstoða barnið við nám sitt.

Skýr fyrirmæli er lykilatriði þar sem barn verður að vita hvers er ætlast til af því. Það er til dæmis hægt að brjóta verkefni niður í smærri einingar og gefa ein fyrirmæli í einu.

Sjónrænar vísbendingar geta dregið úr óöryggi barns ásamt því að ýta undir sjálfstæði þess.

Fiktdót eða það hafa eitthvað í höndunum til að „fikta í“ getur hjálpað börnum sem eiga erfitt með að vera kyrr eða eiga erfitt með að einbeita sér. Þannig fá þau ákveðna útrás án þess að færast úr stað.

Sýnilegt námsefni: t.d. tölustafir, stafrófið eða orðaveggur sem barnið geta nýtt sér þegar það þarf á því að halda. Það ýtir undir sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði barnsins ef það getur nálgast upplýsingar sjálft í stað þess að þurfa að leita til kennara í hvert skipti sem það þarf aðstoð.  

Áhugasvið. Ef viðnýtum áhugasvið barnsins í náminu þá eru meiri líkur á að barnið hafa gaman af náminu og styrkleikar þess fá að njóta sín

Heilahlé: Stundum þurfa litlir heilar smá hlé og þá er gott að geta gripið í t.d. bækur, önnur verkefni eða skipta um umhverfi í stutta stund.

Ef hægt er að mynda augnsamband við barnið þá er það góð leið til að fá endurgjöf strax frá barninu t.d hvort barnið hafi náð þeim fyrirmælum sem maður setti fyrir það.

Tímavaki: Börn með einbeitingarerfiðleika eru oft með takmarkað tímaskyn og því geta tímavakar (skeiðklukkur) komið að góðum notum. Hægt er að stilla hversu langan tíma barnið fær/þarf að gera ákveðna athöfn og barnið getur fylgst með hvernig tímanum líður.

Einfalda/afmarka námsefnið: Þá er í raun verið að gefa barninu minna að hugsa um í hvert skipti, t.d. ef barnið upplifir verkefnin sín óyfirstíganleg þá er gott að brjóta þau niður í smærri einingar og klára hverja einingu fyrir sig.

Verkleg verkefni: Að læra með því að framkvæma! Með því að barnið framkvæmi sjálft þá er það að þjálfa hina ýmsu þætti, t.d. sjálfstæði, frumkvæði og lausnarleit.